Húsgögn og heimili
Um síðuna
Hugmyndin að baki þessari bloggsíðu er áhugi okkar hjóna á að kaupa notuð húsgögn eða húsbúnað í misjöfnu ástandi til að breyta og bæta. Ýmist er þetta tilraunastarfsemi sem algjörlega mislukkast (en svo lengi lærir sem lifir ekki satt) eða endar sem fallegt og velheppnað stofustáss. Ég hef sérstaklega gaman af því að velta fyrir mér hlutum sem gleðja augað og hvernig best sé að framkvæma það til að fegra heimilið mitt.
Áhugi minn á gömlum húsgögnum og skrautmunum vaknaði þegar ég var unglingur og fór gjarnan á skranmarkaði þar sem ég bjó erlendis. Ég vissi fátt skemmtilegra og líklegast er það enn svo í dag þó það séu færri slíkir markaðir hérna á Fróni.
Það vill líka svo heppilega til að maðurinn minn hefur áhuga á ýmiskonar smíðavinnu og m.a. að gera upp húsgögn. Mögulega liggur sá áhugi þó meira í öllum þeim möguleikum á tækja- og græjukaupum sem slíku fylgir.
Við erum hvorugt með menntun á þessu sviði eða aðra reynslu en bara sem nemur áhuga og almennu fikti.
Þessi áhugamál okkar eiga ákaflega vel saman og hefur oft gagnast okkur frá því að við hófum búskap að vera útsjónarsöm og viljug til að gera hlutina sjálf. Margir hafa sýnt þessu húsgagnabrölti okkar áhuga og þess vegna ætla ég að prófa þennan vettvang til að sýna og segja frá, ásamt að deila með ykkur mínum vangaveltum um falleg heimili.
Vonandi hafið þið gaman af.
Stella Vestmann