Það er eitthvað ákaflega fallegt við lýsinguna sem kemur af því að hafa skerma gyllta að innan. Birtan verður mild og mjúk, nánast eins og kertaljós. Gyllingin verður einnig skemmtilegt smáatriði sem setur svip sinn á heildar útlit rýmissins þó svo ekki sé kveikt á ljósinu. Það glittir í gyllinguna á látlausan en skemmtilegan máta.
Svartur skermur kemur ákaflega vel út í þessu samhengi og býr til enn frekar dempaða og notalega birtu.
Hvítt og gyllt fer líka ákaflega vel saman. Það er örlítið bjartara yfirbragð fyrir vikið en lýsingin er sú sama. Skermarnir sleppa ekki út mikilli birtu í gegnum sjálfan skerminn eins og á hefðbundnum tauskermum.
Þar sem úrvalið af skermum er ekki mikið hérlendis ákvað ég að gera sjálf skerma fyrir borðstofuna okkar. Ég fann mér tvo skerma í réttri stærð og lögun til að aðlaga að því "lúkki" sem ég taldi henta best hjá mér. Ég spreyjaði þá fyrst gyllta að innan. Þegar það var komið ákvað ég að spreyja þá líka að utan í hvítu. Efnið í skerminum fékk hinsvegar "gæsahúð", það úfnaði og gjörsamlega drakk í sig endalaust. Ég gafst upp á því að spreyja og ákvað að mála þá í staðinn sem gekk mun betur. Áferðin sem kom við að spreyja var meira að segja nokkuð skemmtileg þegar búið var að mála. Skermurinn varð grófur að utan og gaf þessu á endanum flott "lúkk".