Að mínu mati er sjónvarpið ljótasta og frekasta húsgagn heimilisins. Eins og lítill frekur sjálfhverfur krakki reynir það að láta allt heimilið aðlaga sig að sér. Vissulega tekur það gjarnan drjúgan hluta af tíma okkar á hverjum degi en það er ekkert sem segir að við getum ekki stýrt þessu og dreyft athyglinni í aðrar áttir.
Takið samt eftir því að í 95% mynda af fallegum heimilum í tímaritum og á netinu er hvergi að sjá sjónvarp! Það er beinlínis erfitt að finna fjölbreytt úrval fallegra hugmynda fyrir þennan niðursetning.
Hérna eru hins vegar nokkur ráð gegn þessu svartholi heimilisins sem hægt er að nýta sér:
- Brjóttu upp formið í kringum sjónvarpið með myndum. Láttu sjónvarpið "falla inn" í myndavegg með dökkum römmum og myndum. Þetta myndar meiri heild.
- Ef þú ert meira fyrir lítið veggskraut, málaðu vegginn á bakvið sjónvarpið dökkan svo það falli betur inn í vegginn.
- Ekki raða öllum húsgögnum að sjónvarpinu eins og það sé Mecca! Þó svo sófinn snúi að sjónvarpinu settu þá tvo stóla fyrir framan sófann með bakið í sjónvarpið. Þá lítur sófinn meira út fyrir að vera svæði til að vera með vinum í góðu spjalli. Lítið mál að snúa svo stólunum við í Eurovision partíinu til að allir geti séð.
- Ef sjónvarpið er á skenk, settu þá háa vasa eða skrautmuni til hliðanna (ramma, vasa, kertastjaka, lampa), alls ekki lága!
- Settu sjónvarpið inní hillusamstæðu, td. Hansa hillur eða Ivar. Ekki einskorða þig við sérstakar sjónvarpshillusamstæður.
Hérna eru nokkur dæmi: