Þetta fína snyrtiborð fundum við í ansi slöppu ásigkomulagi. Það var hvítmálað, rispað og með plast höldum. Fyrst áttuðum við okkur ekki á því að undir málningunni væri tekk spónn en fór fljótlega að gruna það. Við náðum málningunni af, pússuðum, olíubárum og lagfærðum það sem þurfti auk þess að skipta um höldur. Et voilà, í ljós kom þessi ljómandi fallega tekk mubla!
Það sem mér finnst þó einna skemmtilegast við þetta er snyrtiborðið! Spegillinn er vel falinn undir borðplötunni og hægt að draga fram og fella aftur inn. Framhliðin á skúffunni er felld niður til að nota sem borðplötu. Ég get ekki sagt annað en að það sé ansi þægilegt að hafa svona grip á morgnanna þegar öll fjölskyldan þarf að nota baðherbergið.
Þó tekkið sé afar fallegt þá hentar það ekki hjá okkur og því enduðum við á að selja þessa nýju vinkonu mína.
Það er ákaflega ánægjulegt og gefandi að finna gæða húsgagn, gefa því nýtt líf, og sjá hvernig það fær að njóta sín aftur!
Hérna er svo mynd af snyrtiborðinu eins og við fengum það.