Mér fannst okkur sárlega vanta höfuðgafl og því ákváðum við að prófa að gera hann sjálf. Það eru til óteljandi mörg kennslumyndbönd á youtube svo það var lítið mál að finna leiðbeiningar. Við áttum dýnu úr barnarúmi sem dóttir okkar er hætt að nota og það vildi svo heppilega til að lengdin á dýnunni er sú sama og breiddin á rúminu okkar. Kjörið að nýta hana í stað þess að láta hana taka pláss í geymslunni.
Þetta var lítið mál:
- Ég lét sníða mdf plötu fyrir okkur í Bauhaus.
- Merkti hvar festingarnar fyrir tölurnar áttu að koma í gegnum plötuna.
- Boraði göt á plötuna til að þræða í gegnum.
- Límdi dýnuna á plötuna með límbyssu.
- Strekti efnið á dýnuna og heftaði á bakhlið plötunnar.
- Bjó til tölurnar úr afgangs efni.
- Stakk nálinni öfugri upp í gegnum dýnuna (gott að vera með stóra, grófa nál), þræddi þráðinn úr tölunni og á nálina og dróg svo þráðinn aftur í gegn.
- Á bakhliðinni notaði ég bút úr efninu til að búa til nægilega mótstöðu og festingu fyrir tölurnar.
Hérna er ágætt myndband um hvernig hægt er að gera þetta.