top of page
No tags yet.

Færslur eftir efni: 

Nýlegar færslur: 

Tekk er töff

Tekkið er svo sannarlega töff. Bæði í útliti og gæðum. Ég tengi það gjarnan við Bond bíómyndir og Mad Men þættina góðu. Þetta var ákaflega vinsælt hér á landi fyrir nokkrum áratugum en þótti svo ákaflega hallærislegt og hvarf nánast alveg. Fólk henti þessu og hansahillunum í umvörpum. Núna er þetta búið að vera eitt heitasta trendið síðustu ár.

Þessi húsgögn eru í eigu tengdaforeldra minna. Ég fékk aðeins að leika mér með þau þegar ég var í tekk/ekki-tekk hugleiðingum heima hjá mér. Borðið þyrfti aðeins að pússa og olíubera aftur svo það nái fyrri fegurð. Tengdafaðir minn (sérlega hygginn maður) bjargaði nokkrum svona stólum frá því að vera hent fyrir mörgum árum síðan.

En aðeins um tekkið. Það er unnið úr mjög stórum lauftrjám frá Suðaustur-Asíu (þekkt sem Tectona Grandis). Tréð er með lítil hvít ilmandi blóm. Þegar búið er að höggva og vinna tréð má finna svipaða lykt og af leðri. Tekk er sérlega endingargóður viður og vatnsþolinn þar sem hann er olíuríkur. Hann er oft notaður í bátasmíði, byggingar, spón, húsgögn og margt fleira. Hann er t.d. mikið notaður á Indlandi í dyr og gluggaramma.

Tekkhúsgögn verða smám saman dekkri vegna þess að viðurinn „svitnar“ út sínum náttúrulegu olíum og myndar sína eigin vörn. Til að viðhalda lit tekksins þarf að olíubera húsgögnin reglulega. Það er hægt að fá ýmsar olíutegundir, bæði með og án lit. Ég mæli með tekkolíu fyrir húsgögn úr tekki. Hins vegar ef húsgögnin eru illa farin þarf fyrst að pússa varlega með fínum sandpappír eða stálull. Passið samt að fara ekki of djúpt.

Ég mæli með þessari umfjöllun fyrir áhugasama:

http://home.howstuffworks.com/home-decor/accessories/teak-wood-furniture.htm

bottom of page