Stundum tekur maður áhættu og vonast eftir því að undir þykkri ljótri málningu leynist gæða gripur eins og þessi. Þessi var blá og rispuð áður en við tókum hana í gegn. Þykk blá málning var innan í höldunum sem tók töluverða þolinmæði að ná af með mini-fræsara. Eins þarf að passa að pússa og hamast ekki of mikið til eyðileggja ekki húsgagnið.
Við pússun þessarar kommóðu kom í ljós að spónninn undir málningunni var mjög illa farinn sumstaðar, svo eftir smá tilraunastarfsemi prófuðum við að setja tekk-bæs á hana áður en settar voru þrjár umferðir af tekk olíu. Alltaf að prófa sig áfram!
Ég er ekki frá því að mér þykir þetta örlítið skemmtilegra. Hrárra, soldið macho. Ég ímynda mér lykt af leðri og vískíglas, svona "on the side". Ef maður ætti forláta leðurstól til að hafa við hliðina á henni þá væri þetta "gordjöss". Dempuð birta og Johnny Cash.
Eins og áður hefur komið fram á ég í mjög sérkennilegu haltu mér/sleptu mér sambandi við tekkið. Ég hrífst rosalega af því en það er samt ekki alveg sá stíll sem hentar mér heima. Því miður. Engu að síður er svo sannarlega gaman að taka tekk húsgögn og kalla fram það besta í þeim.
Hérna er myndin af henni fyrir lagfæringu.